Starfsreglur

STARFSREGLUR ENDURLÍFGUNARRÁÐS ÍSLANDS
 
1. gr.
Heiti og hlutverk ráðsins

Ráðið heitir Endurlífgunarráð Íslands og er fagráð sérfræðinga á sviði endurlífgunar og eitt af aðildarfélögum Evrópska endurlífgunarráðsins (ERC). Endurlífgunarráði er ætlað að vera ráðgefandi um málefni sérhæfðrar endurlífgunar hér á landi. Sérhæfð endurlífgun er endurlífgun sem framkvæmd er af sérfræðingum á sviði endurlífgunar oft með aðstoð sérhæfðs tækjabúnaðar og/eða lyfja.

Í stjórn sitja 9 aðalfulltrúar.

2. gr.
Tilgangur og markmið

Endurlífgunarráð vinnur að verndun og björgun mannslífa með fræðslu og upplýsingagjöf um sérhæfða endurlífgun.

Markmið ráðsins er að:

  • Fylgjast með nýjungum á sviði endurlífgunar.

  • Vinna að gerð íslenskra vinnuleiðbeininga um sérhæfða endurlífgun sem samræmast leiðbeiningum ERC hverju sinni.

  • Móta stefnu um kennslu, þjálfun og símenntun heilbrigðisstétta hvað varðar sérhæfða endurlífgun.

  • Sjá til þess að reglulega séu haldin sérhæfð endurlífgunarnámskeið hér á landi fyrir starfsfólk í heilbrigðisgeiranum.

  • Mennta leiðbeinendur til að kenna á sérhæfðum endurlífgunarnámskeiðum og sinna endurmenntun þeirra.

  • Sinna ráðgjöf um allt er varðar búnað og lyf sem notuð eru til sérhæfðrar endurlífgunar.

  • Stuðla að rannsóknum á sviði sérhæfðrar endurlífgunar hér á landi.

  • Samræma vinnu þeirra aðila hér á landi sem á einhvern hátt vinna að rannsóknum og fræðslu á sviði endurlífgunar.

  • Sýna almenningi fram á mikilvægi þekkingar í endurlífgun.

  • Taka þátt í alþjóðlegu starfi á sviði endurlífgunar.

3. gr.
Skipan og tilnefningar í ráðið
Ný stjórn er kosin á aðalfundi annað hvert ár. Í ráðinu skal sitja fagfólk úr röðum lækna, hjúkrunarfræðinga og bráðatækna sem sinna endurlífgunarmálum í starfi sínu, kenna eða stunda rannsóknir á því sviði.Leitast skal við að í stjórn sitji fagfólk sem hafi sem víðtækasta sérþekkingu á málefnum endurlífgunar. Uppstillinganefnd gerir tillögu að stjórn fyrir aðalfund skv. nánari verklagsreglum sem stjórn setur.Starfsmaður Endurlífgunarráðs skal auk þess sitja fundi ráðsins.
 
4. gr.
Umsjón og stjórnskipulag

Embætti landlæknis hefur umsjón með starfsemi og skipulagi Endurlífgunarráðs Íslands og skipar formann ráðsins. Endurlífgunarráð skipar varaformann og ritara. Ekki eru greidd laun fyrir setu í ráðinu.

Hlutverk formanns er að skipuleggja fundi, hafa yfirsýn yfir starfsemi ráðsins og vera tengiliður Endurlífgunarráðs Íslands við Embætti landlæknis. Formaður eða fulltrúi hans skal enn fremur vera tengiliður ráðsins við Evrópska endurlífgunarráðið (ERC).

Ritari skal sjá um að skrá fundargerðir og senda þær á fundarmenn.

Starfsmaður Endurlífgunarráðs er jafnframt gjaldkeri ráðsins. Hlutverk gjaldkera er að hafa yfirlit yfir fjármál vegna námskeiðahalds og annarrar starfsemi á vegum ráðsins.

Starfsár Endurlífgunarráðs er frá janúar til desember á hverju ári. Aðalfundur Endurlífgunarráðs skal haldinn eigi síðar en 15. mars ár hvert.

Ársskýrslu og ársreikning skal senda til Embættis landlæknis til samþykktar að loknum aðalfundi.

5. gr.
Skrifstofa

Starfsmaður Endurlífgunarráðs er ráðinn til að sjá um daglegan rekstur í kringum námskeiðahald og aðra starfsemi ráðsins. Umfang starfsins ákvarðast af verkefnum og í samræmi við fjárhagsramma hverju sinni.

6. gr.
Fjárhagur

Fjárhagur Endurlífgunarráðs er byggður á þátttökugjöldum nemenda á námskeiðum, auglýsingatekjum og öðrum fjáröflunarverkefnum. Ákvarðanir um þátttökugjöld á námskeiðum skal taka á aðalfundi Endurlífgunarráðs.

Endurlífgunarráð Íslands greiðir ferðakostnað meðlima utan Reykjavíkur vegna fundahalda í Endurlífgunarráði og ferða- og dvalarkostnað fulltrúa ráðsins vegna funda tengt starfsemi ERC.

7. gr.
Fundir stjórnar

Fundir eru haldnir svo oft sem þurfa þykir þó eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Fundir geta farið fram á rafrænu formi. Boðað skal til fundar með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara. Fundarboði skal fylgja dagskrá fundarins. Formaður ber ábyrgð á fundarboðum í samráði við ritara. Á fundum skulu tekin fyrir þau málefni endurlífgunar sem ráðið vinnur að hverju sinni auk fyrirspurna. Fundir stjórnar skulu bókfærðir af ritara og fundargerðir sendar út til fulltrúa í stjórn og birtar á heimasíðu ráðsins. Einu sinni á ári er fundað með Skyndihjálparráði um sameiginleg málefni ráðanna.

8. gr.
Úrsögn úr stjórn

Óski aðili eftir að hætta í stjórn, skal úrsögn vera skrifleg og berast formanni stjórnar Endurlífgunarráðs. Formaður skal sjá um að kynna úrsögn úr ráðinu á næsta fundi þess. Tilnefning á nýjum meðlim þarf að fara fram innan tveggja mánaða.

9. gr.
Breytingar á starfsreglum

Breytingar á starfsreglum skulu lagðar fram og kynntar a.m.k. 2 vikum fyrir aðalfund. Breytingar sem fram koma á aðalfundi þurfa atkvæði meirihluta atkvæðisbærra fundarmanna.

Starfsreglur þessar voru fyrst settar fram 1. júní 2008, síðar endurskoðaðar og samþykktar á stofnfundi 11. nóvember 2013, endurskoðaðar og samþykktar á aðalfundi 17. maí 2017. Endurskoðaðar og samþykktar á aðalfundi 29. maí 2019. Endurskoðaðar og samþykktar á aðalfundi 9. september 2022.